top of page
Geirthrudur.jpg

Geirþrúður Einarsdóttir
Selasæng / Seal Blanket

 


08- 30 júlí 2023

Selasæng

 

Sýningin Selasæng er ferðalag í draumsvefni, um minningar og sameiginleg minni í dramum. Hlutir og staðir geta virst öðruvísi í minningum en í raunheimum. Líkt og í draumi þá er eins og minning lúti oft ekki lögmálum hversdagsleikans. Staðsetningar eru á reiki, stærðir afstæðar og hlutir geta breytt lögun sinni og jafnvel lit. Verkin á sýningunni flétta saman frásagnir fólks um lífið í sveitinni við minningar listamannsins úr tjaldferðalögum fjölskyldunnar í æsku. Svipmyndir einkennast af lykt og tilfinningu frekar en skýrri rökhugsun.

 

“Að ganga til grasa var það kallað, þegar maður fór að heiman tjaldlaus og var ekki nema einn sólarhring í burtu eða stundum ekki nema nóttina, ef stutt var að fara á grasamóinn.”1

 

Við keyrðum inn í eyðidal að yfirgefinni verksmiðju. Við fórum inn í hana og húsið gleypti okkur. Allskyns gömul tól og tæki. Byggingin var samofin landslaginu og fuglar flugu inn um gluggana og út aftur. Við hittum gamlan mann í fullum sjóklæðum. Hann bjó í litlu húsi í flæðarmálinu og átti bát og fiskinet. Við gengum upp að jökli og ég fann hvernig loftið kólnaði og ég þurfti að setja á mig húfu og vettlinga. Ég man eftir stórum grasmóa með óteljandi þúfum. Það var gaman að hoppa á milli þeirra. En svo varð ég þreytt og við gengum í þögn. Allt í einu flaug hrossa-
gaukur upp undir buxnaskálmina hjá mér. Við hliðina á fætinum var hreiður. Ég hljóp til systur minnar þar sem hún stóð í efsta þrepi girðingastigans. Við keyrðum mjóa fjallvegi í bröttum hlíðum og mamma gat ekki horft út um gluggann. Pabbi tók krappar beygjur og ég leit út um afturrúðuna og sá tvær sandlóur með unga hlaupa í vegkantinum. Einu sinni ætlaði ég að strjúka og tók koddann minn og gekk af stað eftir veginum. Pabbi kom á efir mér og taldi mér trú um að snúa við. Við tjölduðum hjá læk sem rann út í sjó. Ég veiddi síli allan daginn og kom til baka í tjaldið þar sem mamma var að steikja lummur. Eina nóttina rigndi svo mikið að tjaldið lak. Við pökkuðum öllu saman og keyrðum af stað.

 

1 Úr síðustu leit (1944) eftir Ingibjörgu Lárusdóttur

Geirþrúður Einarsdóttir (f. 1989) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2016.

Haustið eftir útskrift var hún starfsnemi hjá listamannarekna rýminu A-Dash í Aþenu.

Í dag býr hún og starfar í Reykjavík. Geirþrúður hefur að undanförnu unnið að gerð lágmynda úr máluðum hörstriga.
Verkin sækja innblástur til landslags og loftmynda af óræðum stöðum. Þau byggjast upp í lögum og línum og hafa sterka tengingu við náttúruna. Geirþrúður er á mála hjá Listval og hefur sýnt verk sín bæði á sýningum hér heima og erlendis.

Fyrir nánari upplýsingar um einstök verk, hafið samband í síma 895-5556 / 822-1929

eða sendið póst á galleri@portfolio.is

Takk fyrir, við höfum samband fljótlega

bottom of page