Árni Páll Jóhannsson
Árni Páll Jóhannsson ólst upp í Stykkishólmi og áður en hann flutti til Reykjavíkur hafði hann farið í námsferð til Englands. Þar komst hann fyrst í kynni við þá nýju strauma í myndlist sem áttu eftir að móta hans eigin listsköpun: Ég fór til Englands frá Stykkishólmi og meðan ég var þar slysaðist ég á sýningu þar sem ég sá verk sem kveiktu í mér.
Myndlist Árna Páls á uppruna sinn í deiglu áttunda áratugarins þegar Fluxus- og konseptlist var að ná þroska í meðförum íslenskra listamanna. En verk hans bera líka sterkan keim af minimalisma – þeirri hugmynd að myndlistin skyldi vera eins knöpp og mögulegt er, að þar eigi ekkert heima nema það sem nauðsynlegt er til að koma inntaki verksins til skila. Í verkum Árna Páls má sjá hvernig þessar hugmyndir bræðast saman: Leikurinn og húmorinn sem voru eitt helsta einkenni Fluxus-listarinnar, hugmyndaleg nálgun konsept-listarinnar og tær framsetning minimalismans. Árni Páll beitir fyrir sig ýmsum aðferðum og vinnur í mismunandi miðla og efni. Elstu verkin á sýningunni eru ljósmyndir frá fyrstu sýningu hans í Galleri SÚM, teknar árið 1975. Það eru portrett af lista-mönnunum Birgi Andréssyni og Bjarna H. Þórarinssyni sem þá voru nemendur í Myndlista- og handíðaskólanum. En þetta eru þó ekki bara portrett því á myndunum eru höfuð þeirra bundin hvítum og svörtum klútum – það er konsept eða einhvers konar Fluxus-leikur. Í yngri verkunum má hins vegar sjá hvernig aðferðin verður sífellt agaðri og knappari, nálgunin við efnið varfærnari og framsetningin einfaldari. Leikurinn og húmorinn eru þó aldrei langt undan.