top of page

Jón Laxdal

Leið Jóns Laxdal að myndlistinni lá í gegnum skáldskap og heimspeki sem hann lagði sig helst eftir á áttunda áratugnum. Hann fann þó fljótlega að hann átti samleið með þeim sem vildu brjóta niður múrana milli tungumáls og myndlistar, og milli túlkunar og sköpunar. Sem skáld sá hann að ef hann tók orðið „flugur“ og dreifði stöfunum um blaðsíðuna varð til mynd af flugum. Mynd og merking, orð og veruleiki, fóru að hverfast hvert um annað og kalla á síendurtekna túlkun. Í stað öruggrar niðurstöðu varð til skapandi óvissa.

Spessi2020_210120-00-00-00-00005-4.JPG

Jón Laxdal 1950 - 2021

Um listsköpun Jóns Laxdal. Hópur fólks kom að stofnun Gula hússins árið 1980. Um leið og Jón tók þátt í daglegum rekstri menningarstarfsins fór hann að fikta við myndlist, en áður hafði hann fengist við skáldskap og heimspeki. Nú færðist myndform yfir ljóðið. Úrsmiðssonurinn og barnaskólakennarinn mættust í konkret ljóðum og Gagn-og-gaman seríunni. Tímanum og listamanninum vindur fram, klippimyndir á tvívíðan flöt, þrívíðar myndir og þá sprakk út hugarheimur sem heltók manískan listamann. Það var límt á allt sem fyrir varð; skór, barnarúm, stólar, ræðupúlt og ísskápur. Jón Proppé skrifar um listsköpun Jóns. 
“Hann kom að myndlist eftir krókaleiðum, úr heimspeki og kveðskap, á áttunda áratugnum þegar nýlistin kom til Íslands og þurrkaði út öll mörk. Jón varð virkur í þeim umskiptum og átti mikinn þátt í því að kynna nýlist, konsept og þvílíkt á Akureyri þar sem nýjungunum var fálega tekið í fyrstu. Fyrirmyndir Jóns virðast hafa verið Kurt Schwitters, Raoul Hausmann og fleiri þó ekki megi greina beinar tilvísanir í verkum hans. Konkretljóðin voru leið Jóns að myndrænni framsetningu og í þeim verkum má segja að hann hafi á ótrúlega skömmum tíma unnið sig gegnum þær nálganir og f rá þeim enda er konkretljóðlist dálítið eins og op-art, sniðug og oft inspírerandi en skortir nokkuð dýpt og innihald.“ Frá konkretljóðum fór Jón fljótlega að fikra sig áfram með klippimyndir á tvívíðan flöt sem ýmist voru abstrakt, fundnir hlutir, eða hreinar leturmyndir. Hann sagðist alltaf vera að yrkja, en nú á myndrænan hátt. Jón Proppé skrifar um listsköpun Jóns. 
“Þessi aðferðafræði er alls ekki óþekkt í myndlist en Jón beitir henni þannig að minnir frekar á heimspeking sem rekur í sundur hugtak með því að prófa það við ótal breytur og redúsera þangað til kjarni þess stendur eftir. Smátt og smátt tekur Jón síðan fleiri þætti efnisins til athugunar. Jafnframt hinum miklu formpælingum skoðar hann áferð og lit og loks einnig innihald textanna og alla tilvísan. Með langri ástundun og ígrundun hefur Jón náð tilfinningu fyrir viðfangsefni sínu þannig að verk hans mynda samfellda samræðu hans við umhverfi sitt, samtíma og söguna.” Klippimyndir Jóns færðust yfir á þrívíða fundna hluti og um leið á þrívíða skúlptúra sem um margt minntu á standklukkur úrsmíðaverkstæðisins. Oftast með tilvitnunum í heimspeki og jafnvel haganlega og nákvæmlega rifnar niður og límdar á flöt, heimspekibækur um menn eins og Immanuel Kant. Um það leiti fór hann að vinna fuglahús og hólkaverk ýmiskonar. Og svo myndir og fundið efni á bakka með gleri sem standa á borði og áttu eftir að verða fyrirferðamiklir í listsköpun Jóns. Myndheimur Jóns stækkaði sífellt eftir því sem árin liðu og höndin varð óstyrkari þannig að klippimyndir á tvívíðan flöt viku fyrir samsettum verkum úr fundnu efni ýmist á gólf eða veggi. Bókin spilaði alltaf stórt hlutverk í verkunum en oft á tíðum einfaldlega hans nánasta umhverfi og daglegt líf. Má þar nefna fjölda verka unnin á vínflöskur og fleyga, bókverk af öllum gerðum og samsett með fundnum hlutum og seríu verka með hrökkbrauði og litskrúðugum plastfígúrum. Ótrúlegustu og ómerkilegir hlutir rötuðu inn í myndheim Jóns þar sem allt átti sér gaumgæfilegan ígrundaðan stað og merkingu Jón starfaði á vinnustofum í Gamla barnaskólanum á Akureyri, Greninu í kjallara Listasafnsins á Akureyri og í Freyjulundi þar sem bjó einnig út ævina. Jón starfaði á vinnustofum í Gamla barnaskólan, í Greninu í kjallara Listasafnsins á Akureyri og í Freyjulundi sem einnig var heimili hans út ævina.

Til að fá verð á listaverkum vinsamlegast fyllið út formið

Takk fyrir, við höfum samband fljótlega

bottom of page